Gleðileg jól!

Fullt tungl yfir Reykjavík rétt fyrir vetrarsólstöður. Fullt tungl yfir Reykjavík rétt fyrir vetrarsólstöður.

 

Í lok hvers árs er við hæfi að líta til baka og leggja mat á hvernig hefur gengið bæði í ræktuninni og framleiðslu garðyrkjuafurða. Heldur má ekki gleyma að velta fyrir sér nánasta umhverfi sínu, fjölskyldu og vinum.

Árlega erum við minnt á þá staðreynd hvar við búum og að allra veðra er von. Ég hef áður rætt þá áskorun sem útiræktendur standa frammi fyrir á hverju ári. Ræktendur blóma, trjágróðurs og runna jafnt sem grænmetisframleiðendur takast á við veðurfarið sem er síbreytilegt.

Síðustu tvö sumrin hafa verið afar erfið í útiræktun. Þrátt fyrir að vorin lofi góðu hefur skipt yfir í kuldakafla eða votviðri. Ársins 2013 vilja margir gleyma og virtist sem 2014 ætlaði að fara svipaða leið en þrátt fyrir erfiða sumarbyrjun virðist sem tekist hafi að bjarga þokkalegri meðaluppskeru í hús að mestu leiti! En vel að merkja að meðaltali.

Ég hef heyrt á nokkrum framleiðendum að uppskeran hafi verið slök aðallega vegna bleytu. En sem betur fer hef ég heyrt frá enn fleirum framleiðendum sem segja að tekist hafi að ná ásættanlegri uppskeru. Líklegast er þetta oftast svona og eitt er á hreinu að það gengur ekki allt eins og maður vildi hafa það.

Þrátt fyrir að stundum komi daprar stundir í lífinu þá rís sólin upp á himininn á hverjum morgni og það styttir upp um síðir. Nú er dagur mjög stuttur og vetrarsólstöður nýliðnar. Það þýðir einnig að dag fer að lengja fyrst hægt og rólega en alltaf ákveðið þar til birtan yfirtekur sviðið og bægir myrkrinu frá.

Ég óska garðyrkjubændum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og ánægjulegra daga yfir hátíðirnar með von um gott ræktunarár 2015!

Bjarni Jónsson

 

 

Til baka