Verklagsreglur

VERKLAGSREGLUR Sambands garðyrkjubænda

Um úthlutun og afgreiðslumáta styrkumsókna vegna 5. gr. Aðlögunarsamningsins

Eftirfarandi verklagsreglur eru samdar af Sambandi garðyrkjubænda

Umsóknir þarf að meta á faglegan og kerfisbundinn hátt til að aðilar viti fyrirfram eftir hverju er farið.  Við mat á umsóknum getur þurft að taka tillit til veltu fyrirtækisins og þess hvort viðkomandi hefur áður fengið úthlutað styrk samkv. 5. gr aðlögunarsamningsins.  Samþykki fyrir styrkveitingum skal vera skriflegt. Umsóknum má skila í netpósti en einnig skulu þær berast skriflega ef um umsókn er um styrki til rannsókna og vöruþróunar.

Grundvöllur aðlögunarsamningsins er að efla beri ræktun á íslensku grænmeti og kartöflum.  Þess vegna eru eingöngu veittir styrkir vegna íslenskrar framleiðslu.  Það þarf því að koma skýrt fram við sölu og framsetningu vörunnar að um íslenska framleiðslu sé að ræða.  Samband garðyrkjubænda hefur látið sérhanna svokallaða fánarönd til þessara merkinga og setur sem skilyrði fyrir styrkveitingum að hún sé notuð, eða önnur merking sem tilgreinir rækilega að um íslenskt ræktað grænmeti sé að ræða og stjórnin metur fullnægjandi.  Stefnt er að því að árið 2008 verði allar merkingar með fánarönd SG.

 

KYNNINGAR – umsóknarfrestur er allt árið

Styrkumsóknir eru metnar á grundvelli áætlunar kynningaraðila.  Ætlast er til að umsækjandi greiði sjálfur a.m.k. krónu á móti krónu í hvert verkefni.  Ekki eru styrktar beinar auglýsingar eða heimasíðugerð fyrir einstaka aðila.  Skilyrði fyrir að auglýsingastyrkur sé veittur er að auglýsingin sé í nafni íslensk grænmetis í heild og/eða í framhaldi af viðurkenndri vöruþróun og að fánarönd SG sé notuð eða önnur merking sem tilgreinir rækilega að um íslenska framleiðslu sé að ræða og stjórnin metur fullnægjandi.  Umsókn skal berast a.m.k. 3 mánuðum fyrir kynningu.

Með umsókn fylgi eftirfarandi upplýsingar:

 1. Framkvæmd.  Hvar á að      kynna/auglýsa, hvenær og hvernig.
 2. Markhópur.
 3. Kostnaðaráætlun og eigið framlag.
 4. Niðurstöður.  Innan 3      mánaða frá því að kynningin/auglýsingaátakið fór fram skili fyrirtækið til      SG mati á því hverju átakið/kynningin skilaði fyrir fyrirtækið og/eða      íslenska garðyrkju í heild.  Hvernig      verður það gert?

 

RANNSÓKNIR – umsóknarfrestur er til 1. mars og 1. október

Styrkir vegna rannsókna/tilrauna geta numið allt að 50% af kostnaði við rannsóknina/tilraunina.  Einungis er miðað við að styrkt sé til að greiða fyrir þá vinnu sem unnin er fyrir viðkomandi verkefni. Leitað skal álits fagráðs fyrir afgreiðslu umsókna.

Með umsókn fylgi eftirfarandi upplýsingar:

 1. Lýsing á núverandi starfsemi fyrirtækisins.
 2. Hver er tilgangur rannsóknarinnar/tilraunarinnar.  Hver er þörfin.  Það þarf að vera hægt að sjá að verkefnið nýtist íslenskum grænmetisframleiðendum.
 3. Hvernig á að vinna verkið.  Hver á að vinna það.
 4. Tímasetningar.  Upphaf – endir.
 5. Krafa um niðurstöður/áfanganiðurstöður.  Skýrsla. Hvar, hvenær og hvernig munu niðurstöður tilraunarinnar verða kynntar/birtar.
 6. Kostnaðaráætlun og eigið framlag.  Í kostnaðaráætlun komi einungis fram sú vinna sem unnin er fyrir viðkomandi verkefni
 7. Gera þarf ráð fyrir að SG geti haft eftirlit með framkvæmdinni.

Tilraunaaðili tilnefni úttektaraðila sem SG samþykkir.  Að verkefninu loknu votti úttektaraðili að verkefnið hafi farið fram samkvæmt áætlun.

 

ÞRÓUN – umsóknarfrestur er til 1. mars og 1. október

Meginreglan er sú að fyrirtækjum sé hjálpað að þróa vörur (aðkeypt vinna) en vélakaup einstakra fyrirtækja eiga að standa undir sér sjálf.  Um styrki þarf að sækja fyrirfram, þ.e. áður en vöruþróunin hefst og leggja fram krónu á móti krónu í hvert verkefni.  Krafa er að verið sé að styrkja íslenska framleiðslu.  Ársreikningar umsækjanda geta verið nauðsynlegir til að meta bolmagn hans. Leitað skal álits fagráðs fyrir afgreiðslu umsókna um þróun.

 1. Til að hægt sé að meta umsóknina þarf að liggja fyrir hvaða      vöru á að þróa.
 2. Sjóðnum er ætlað að styrkja bæði nýjungar og áframhaldandi      þróun.  Ekki er nóg að umsækjandi      ætli í markaðssókn.  Það þarf að      vera um raunverulega vöruþróun að ræða.
 3. Ef stjórnarmenn eiga beinna, fjárhagslegra hagsmuna að gæta í      einhverju þeirra fyrirtækja sem sækja um styrki víkja þeir af fundi þegar      umsóknir þeirra fyrirtækja eru metnar.       Trúnaðar skal gætt í meðferð upplýsinga frá fyrirtækjum.
 4. Forsendur fyrir að styrkur sé veittur er mat á hverju      verkefni fyrir sig.  Ef sú staða      kemur upp að fleiri en einn sækja um fyrir sömu vöruna þarf að meta hvort      fyrirtækin hafi bolmagn til að fylgja þróuninni eftir til enda.  Ef niðurstaða mats er sú að báðir/allir      séu hæfir og metnir nokkurn veginn jafn hæfir, getur komið upp sú staða að      ef allir verði styrktir nái enginn þeirra nægilegum markaði til að varan      geti gengið.  Ef mat dugir ekki til      að skera úr um þetta má láta hlutkesti ráða því hver hlýtur styrk.  Þeir sem sækja um til þróunar fleiri en      eins verkefnis forgangsraði verkefnunum.
 5. SG heimsæki umsækjendur.

Með umsókn fylgi eftirfarandi upplýsingar:

 1. Lýsing á núverandi starfsemi fyrirtækisins.
 2. Hvaða vöru á að þróa.
 3. Skilgreining á því hver þörf markaðarins er fyrir vöruna.  Hvað er búið að gera til að athuga þörfina.
 4. Varan þarf að vera nýjung (hafa nýsköpunargildi) á þeim markaði sem fyrir er eða stækka núverandi markað.
 5. Ef sótt er um til að þróa fleiri en eina vöru þarf að forgangsraða verkefnunum.
 6. Markhópur.
 7. Tímarammi.  Hvenær er áætlað að vöruþróunin hefjist.  Setja þarf upp vörður sem tilgreini við hvaða áfanga verkefnisins á að endurmeta þróunarvinnuna.  Meta þarf hvort reynslan á ákv. tímapunkti (við tilteknar vörður) er nógu góð til að rétt sé að halda þróuninni áfram.
 8. Kostnaðaráætlun.  Heildarkostnaður.  Gera þarf ráð fyrir markaðssetningu frá upphafi og halda öllum kostnaði saman.  SG hafi aðgang að ársreikningum fyrirtækis sem hyggst hefja þróunarverkefni.
 9. Áföngum þarf að ljúka áður en greiðsla berst.  SG hafi möguleika á að fygjast með þróunarvinnunni á öllum stigum.
 10. Niðurstöður.  Innan árs frá því að varan kemur á markað skal skila til SG mati frumkvöðuls á því hvaða árangri þróunarvinnan skilaði fyrirtækinu og íslenskri garðyrkju í heild á fyrsta árinu.  Hvernig gekk varan á markaði.

 

ENDURMENNTUN

Ráðunautaheimsóknir – umsóknarfrestur er til 1. nóvember

Sækja þarf um ráðunautaheimsóknir fyrir 1. nóvember fyrir næsta ár á eftir.  Ef umsóknir um styrki koma upp eftir að áætlun hefur verið gerð verður að meta þær hverja fyrir sig og með hliðsjón af því hvort fjármunir eru eftir til úthlutunar eða ekki.   Þegar búið er að samþykkja ráðunautaheimsóknir gerir ráðunautur áætlun og skipuleggur heimsóknir næsta árs.  Styrkir vegna ráðunautaheimsókna nema útlögðum kostnaði og launakostnaði viðkomandi sérfræðings eða samkvæmt sérstökum samningum við þá.

 

Með umsóknum fylgi eftirfarandi upplýsingar:

 1. Tilgangur heimsóknarinnar.
 2. Tími.  Hvenær er      heimsóknin áætluð, hver kemur og hversu lengi.

 

Kynnisferðir bænda  – umsóknarfrestur er allt árið

Styrkur til ferðar er 130.000 kr. Heimilt er að greiða tvo styrki á kennitölu hverrar garðyrkjustöðvar á ári og samtals getur heildarupphæð því numið 260.000 kr á hverja garðyrkjustöð.  Ætlast er til að kynnisferðir séu fyrst og fremst skipulagðar af faghópum og/eða ráðunautum.  Heimilt er að veita styrk til að greiða ferðakostnað ráðunautar og/eða framkvæmdastjóra SG.

 

Með umsókn fylgi eftirfarandi upplýsingar:

 1. Markmið ferðarinnar.
 2. Hvaða bændur fara.
 3. Hvers má vænta sem árangurs ferðarinnar.
 4. Dagskrá ferðarinnar.

 

Greiðsla er háð því að skilað sé skýrslu um ferðina og árangur hennar, sem SG samþykkir.

ALMENN ÁKVÆÐI

Stjórn SG getur kallað eftir gögnum frá umsækjendum um þá liði í umsóknum sem stjórnin telur ekki nægilega vel skýrð eða studd fullnægjandi gögnum.  Ef fullnægjandi gögn fást ekki með umsókn getur verið óhjákvæmilegt að vísa viðkomandi umsókn frá.

 

Greiðslur fara fram eftir að verkefni eða áfanga verkefnis lýkur og niðurstöður hafa verið samþykktar af Sambandi garðyrkjubænda.

 

Umsóknir og niðurstöður skula vera á íslensku.

GREIÐSLUR STYRKJA

Styrkir skulu greiddir þegar verkefni er lokið og skilað hefur verið lokaskýrslu þess. Heimilt er að veita undantekningu  ef styrkur er hærri en 2 milljónir en þá má greiða allt að helming af samþykktu framlagi til umsækjanda þegar verkefni er sannarlega hafið og að stofnað hafi verið til kostnaðar sem svari til allt að 50% af kostnaði með framlagningu reikninga. Umsækjandi skal leggja fram áfangaskýrslu sem staðfest verður af SG. Eftirstöðvar skal greiða þegar lokaskýrslu hefur verið skilað og hún  samþykkt af SG.

 

Samband garðyrkjubænda getur krafið umsækjendur um endurgreiðslu ef skilyrði sem um er getið í reglum þessum eru ekki uppfyllt.

 

Greiðslur fara fram eftir að verkefni eða áfanga verkefnis lýkur og niðurstöður hafa verið samþykktar af Sambandi garðyrkjubænda. Upphæðir nefndar hér að ofan eru háðar ákvörðun stjórnar SG hverju sinni.

 

Umsóknir um styrki til þróunar og rannsókna skal vísað til Fagráðs til umsagnar og skal hún liggja til hliðsjónar þegar tekin er ákvörðun um úthlutun. Ráðunautaheimsóknir skulu skipulagðar af ráðunauti í garðyrkju með hagsmuni bænda í huga. Heimlit er að vísa öðrum erindum til Fagráðs ef þurfa þykir og að leita til ráðunautar vegna skipulagningar á kynnisferðum.

 

Hafi styrkur ekki verið sóttur innan 2 ára frá samþykkt hans fellur hann sjálfkrafa niður.

 

Þessar reglur verði birtar á vefsíðu Sambands garðyrkjubænda og í auglýsingum um styrkumsóknir vísað í þær.

 

Reglum þessum var síðast breytt á fundi stjórnar SG 23. júní 2011